ÓPERUSTJÓRI KYNNIR NÝTT STARFSÁR

18. maí 2022

Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri segir persónulegar ástæður hafa ráðið því að Madama Butterfly fer á svið hjá Íslensku óperunni á næsta ári. mbl.is/Hari

„Við finn­um sterk­lega fyr­ir því að framtíðin er byrjuð aft­ur og fátt sem bend­ir til þess að starfs­ár sem kynnt er núna taki drama­tísk­um breyt­ing­um, líkt og reynd­in hef­ur verið meðan heims­far­ald­ur­inn gekk yfir,“ seg­ir Stein­unn Birna Ragn­ars­dótt­ir, óperu­stjóri Íslensku óper­unn­ar (ÍÓ), sem kynnti kom­andi starfs­ár óvenjusnemma að þessu sinni í viðtali í Morg­un­blaðinu um liðna helgi.


„Við fylgj­um þar for­dæmi óperu­húsa víðs veg­ar um heim­inn, enda er ekki eft­ir neinu að bíða eft­ir að ákvörðun hef­ur verið tek­in,“ seg­ir Stein­unn Birna og tek­ur fram að það sé góð til­finn­ing að geta hafið nýtt starfs­ár af full­um krafti. „Við finn­um fyr­ir upp­safnaðri þörf hjá áhorf­end­um okk­ar að kom­ast aft­ur á óperu­sýn­ing­ar hér­lend­is. Góðar viðtök­ur og full­set­inn sal­ur eins og verið hef­ur reynd­in er staðfest­ing á því að það er bæði eft­ir­spurn og þörf fyr­ir starf­semi okk­ar.


Næsta starfs­ár verður áfram boðið upp á Óperum­inn­ing­ar í sam­starfi við RÚV. Kúnst­pás­ur og Söng­skemmt­an­ir verða líka á dag­skrá auk þess sem við stefn­um að fleiri sýn­ing­um á Örlagaþráðum þar sem Auður Gunn­ars­dótt­ir sópr­an, Lára Stef­áns­dótt­ir dans­ari og Bjarni Frí­mann Bjarna­son pí­anó­leik­ari leiða sam­an krafta sína og flytja verk eft­ir Wagner og Schumann. Þeirri sýn­ingu var afar vel tekið og því dreym­ir okk­ur líka um að geta sýnt hana á lands­byggðinni.

Brot­h­ers aft­ur á svið í haust

Þátt­taka okk­ar í Big Bang Festi­val, evr­ópsku tón­list­ar­hátíðinni fyr­ir unga áheyr­end­ur, sem hald­in var í Hörpu fyr­ir skömmu, tókst afar vel. Þar sýndi Ní­els Th. Girerd brúðuupp­færslu sína á Turandot eft­ir Pucc­ini. Okk­ur lang­ar mikið til að þróa það verk­efni áfram,“ seg­ir Stein­unn Birna og legg­ur áherslu á mik­il­vægi þess að bjóða börn­um og upp á reglu­lega fræðslu og kynn­ingu á óper­um. „Því miður tókst okk­ur vegna far­ald­urs­ins ekki að koma Val­kyrj­unni á fjal­irn­ar á liðnu starfs­ári, en sýn­ing­in var til­bú­in til sviðsetn­ing­ar. Þar sem um sam­starfs­verk­efni var að ræða var ákvörðunin ekki bara okk­ar, en von­andi tekst okk­ur að finna henni stað í fyr­ir­sjá­an­legri framtíð. Það er orðið langt síðan að ópera eft­ir Wagner var sýnd hér á landi, svo það má ekki bíða mikið leng­ur enda kom­in rúm 20 ár frá síðustu upp­færslu.“

Brot­h­ers eft­ir Daní­el Bjarna­son verður sýnd í Hörpu í októ­ber. Ljós­mynd/Í​slenska óper­an

Að vanda verður boðið upp á eina stóra upp­færslu fyr­ir jól og aðra eft­ir ára­mót. „Fyrra stóra verk­efni starfs­árs­ins er Brot­h­ers eft­ir Daní­el Bjarna­son sem verður sýnd í Eld­borg Hörpu 23. októ­ber,“ seg­ir Stein­unn Birna og rifjar upp að Brot­h­ers hafi fyrst verið sýnd í Hörpu 2018 og síðan sýnd á Armel óperu­hátíðinni í Búdapest árið eft­ir. Sem fyrr verða Odd­ur Arnþór Jóns­son, Elm­ar Gil­berts­son og Marie Arnet í burðar­hlut­verk­un­um. „Okk­ur hef­ur verið boðið að sýna Brot­h­ers á er­lendri óperu­hátíð haustið 2023, sem mun verða til­kynnt síðar hver er, en af því til­efni fannst okk­ur til­valið að sýna verkið hér í haust enda marg­ir sem misstu af sýn­ing­unni 2018. Á sama tíma á Brot­h­ers sér­stakt er­indi við okk­ur í sam­tím­an­um þar sem óper­an fjall­ar um fórn­ar­kostnað stríðs og þá per­sónu­legu harm­leiki sem það hef­ur í för með sér,“ seg­ir Stein­unn Birna og tek­ur fram að hana langi mikið til að hægt verði að sýna Brot­h­ers á lands­byggðinni „líkt og gafst svo vel með upp­færsl­una á La Tra­viata í Hofi á síðasta starfs­ári í frá­bæru sam­starfi við MAk og Sin­foniaNord. Ég hef per­sónu­leg­an metnað fyr­ir því að Brot­h­ers verði sjálf­sagður hluti af verk­efna­vali óperu­húsa í framtíðinni eins og Tosca og La Tra­viata,“ seg­ir Stein­unn Birna og tek­ur fram að eðli máls­ins sam­kvæmt sé Daní­el nú þegar orðinn stórt nafn í tón­list­ar- og óperu­heim­in­um. „Enda ligg­ur óper­an sem list­form ein­stak­lega vel fyr­ir hon­um.

Við erum einnig að vinna að und­ir­bún­ingi á næstu óperu hans, Agnesi, sem ráðgert er að frum­sýna haustið 2024,“ seg­ir Stein­unn Birna og tek­ur fram að á vinnu­smiðju ný­verið hafi þeim stóra áfanga verið náð að líb­rettóið eft­ir Royce Vavr­ek var leik­lesið í fyrsta sinn. „Við finn­um fyr­ir mikl­um alþjóðleg­um áhuga á Agnesi, sem okk­ur þykir vænt um enda trygg­ir alþjóðlegt sam­starf verk­um fram­halds­líf er­lend­is, sem er afar mik­il­vægt,“ seg­ir Stein­unn Birna og tek­ur fram að reynsl­an úr Brot­h­ers hafi und­ir­strikað nauðsyn þess að gera ráð fyr­ir ákveðnum sveigj­an­leika í sviðsum­gjörð sýn­inga þannig að hægt sé að stækka og minnka leik­mynd­ina í takt við sýn­ing­ar­rýmið hverju sinni.

Daní­el Bjarna­son vinn­ur

nú að óperusem nefn­ist Agnes sem

Íslenska óper­an frum­sýn­ir haustið 2024.

 mbl.is/​Val­g­arður Gísla­son

Sorg­in sem felst í barn­smissi

„Stóra verk­efni vors­ins verður Madama Butterfly eft­ir Pucc­ini sem frum­sýnd verður í Eld­borg 4. mars og sýnd all­ar helg­ar fram til 1. apríl. Hol­lenski leik­stjór­inn Michiel Dijkema mun bæði leik­stýra og hanna leik­mynd upp­færsl­unn­ar, María Th. Ólafs­dótt­ir hann­ar bún­inga og Bjarni Frí­mann Bjarna­son verður hljóm­sveit­ar­stjóri. Hye-Youn Lee frá Suður-Kór­eu syng­ur hlut­verk Cio-Cio San, en ís­lensk­ir söngv­ar­ar verða í öll­um öðrum hlut­verk­um. Lee er frá­bær söng­kona sem sungið hef­ur þetta hlut­verk í ýms­um óperu­hús­um víða um heim,“ seg­ir Stein­unn Birna og tek­ur fram að hún hafi í sinni óperu­stjóratíð ávallt lagt áherslu á að stilla upp sterk­um söngv­ara­hópi sem inni­haldi reynslu­mikla söngv­ara í bland við söngv­ara sem fái tæki­færi til að þreyta frum­raun sína hér­lend­is og alltaf reynt að hafa a.m.k. ein er­lend­an gesta­söngv­ara. „Hrólf­ur Sæ­munds­son mun syngja hlut­verk Sharp­less og Arn­heiður Ei­ríks­dótt­ir hlut­verk Suzuki auk þess sem Unn­steinn Árna­son mun de­bút­era hér­lend­is í hlut­verki Keis­ara­lega sendi­boðans, sem hann syng­ur ein­mitt á Bre­genz óperu­hátíðinni í Aust­ur­ríki í sum­ar.“

Spurð hvers vegna Madama Butterfly hafi orðið fyr­ir val­inu að þessu sinni seg­ir Stein­unn Birna að ástæða vals­ins sé mjög per­sónu­leg, fyr­ir utan hvað tón­list­in sé ein­stak­lega fal­leg. „Enda er er Madama Butterfly það verk óperu­tón­bók­mennt­anna sem er hvað oft­ast sviðsett. Ég hef verið að bíða eft­ir tæki­fær­inu og ein­setti mér þegar ég tók við starfi óperu­stjóra að setja það á svið,“ seg­ir Stein­unn Birna og rifjar því næst upp fjöl­skyldu­leynd­ar­mál sem hafi haft djúp­stæð áhrif á hana.


„Í fyrsta frönsku­tím­an­um mín­um í mennta­skóla sett­ist ég hjá strák sem mér fannst kunn­ug­leg­ur. Hann reynd­ist hafa brenn­andi áhuga á tónlist og komst að því að ég spilaði á pí­anó svo hann bauð mér heim í há­deg­is­hléi þar sem ég spilaði fyr­ir hann Chop­in. Þegar ég lauk við verkið verður mér litið upp og sé þar ljós­mynd af ömmu á veggn­um og spurði hann hvað hann væri að gera með mynd af ömmu minni heima hjá sér og hann svar­ar því til að hún væri amma hans líka. Þá kom í ljós að amma mín hafði, þegar hún var mjög ung, átt barn með manni sem láðist að segja henni að hann væri gift­ur. Til að gera langa sögu stuttu þá gat hann ekki átt barn með eig­in­konu sinni og vegna erfiðra aðstæðna varð amma að gefa frá sér son sinn til þess­ara hjóna sem ólu hann upp. Amma var lát­in skrifa und­ir sam­komu­lag þess efn­is að hún myndi aldrei sjá barnið. Þetta var ömmu mjög þung­bær harm­ur og eitt­hvað sem ég komst að af því ég fann barna­barnið henn­ar fyr­ir til­vilj­un.


Amma var enn á lífi þegar ég fann frænda minn, en mér var ráðið frá því að deila vitn­eskju minni með henni þar sem talið var að það yrði henni of erfitt, en ég hef alltaf haft um það efa­semd­ir því mögu­lega hefði hún orðið glöð að kynn­ast barna­barni sínu á gam­als aldri og fá þannig tæki­færi til að tengj­ast sýn­in­um sem hún missti og fékk aldrei að sjá,“ seg­ir Stein­unn Birna og rifjar upp að sorg ömm­unn­ar yfir barn­smissin­um hafi litað allt henn­ar líf.


„Í Madama Butterfly verður það ljóst í lok óper­unn­ar að Cio-Cio San neyðist til að af­sala sér barni sínu í hend­ur föður þess og eig­in­konu hans. Í raun deyja all­ir draum­ar henn­ar í einu vet­vangi sem leiðir til þess að hún sér enga aðra leið færa en að taka eigið líf. Madama Butterfly er tíma­laust verk í þeim skiln­ingi að þó aðstæðurn­ar séu ólík­ar eru mann­legu til­finn­ing­arn­ar alltaf þær sömu; ást­in er alltaf sú sama, miss­ir­inn og sorg­in er alltaf sú sama sem og löng­un­in eft­ir betra lífi.“

Hye-Youn Lee mun syngja aðal­hlut­verkið í upp­færslu Íslensku óper­unn­ar á Madama Butterfly. Ljós­mynd/​hyeyoun­lee.com

Auk­in meðvit­un um sjálf­bærni

Þess má að lok­um geta að Íslenska óper­an í sam­starfi við Oper Leipzig var ný­verið til­nefnd til Next Stage-viður­kenn­ing­ar­inn­ar fyr­ir verk­efni sem snýr að sjálf­bærni bún­inga í óperu­hús­um. „Það eru all­ir mun meðvitaðri um mik­il­vægi sjálf­bærni og von­andi mun það heyra til und­an­tekn­inga í framtíðinni að leik­mynd­ir og bún­ing­ar í óperu­upp­færsl­um séu aðeins notaðar einu sinni. Óperu­hús eru í aukn­um mæli að skipt­ast á upp­færsl­um og fram­leiða sýn­ing­ar sam­an, sem er frá­bært. Verk­efnið „Sustaina­ble Costu­mes“ snýr að því að finna leið til að skrá­setja alla bún­inga og búa til hringrás­ar­hag­kerfi fyr­ir notk­un bún­inga. Verði þetta verk­efni að veru­leika myndi það breyta nálg­un og leggja mikið af mörk­um til um­hverf­is­vernd­ar,“ seg­ir Stein­unn Birna og und­ir­strik­ar mik­il­vægi þess að Íslenska óper­an taki þátt í alþjóðlega óperu­sam­fé­lag­inu.



„Þrátt fyr­ir smæð okk­ar höf­um við ým­is­legt fram að færa,“ seg­ir Stein­unn Birna og nefn­ir í fram­hald­inu að sér finn­ist full ástæða til að skoða mögu­leik­ann á því að Íslenska óper­an skipt­ist á sýn­ing­um við önn­ur óperu­hús í framtíðinni. „Þegar ég tók við starf­inu ein­setti ég mér að styrkja list­rænu vísi­töl­una hjá Íslensku óper­unni, koma sterk­um stoðum und­ir rekst­ur­inn þannig að hann gæti verið í jafn­vægi og jafn­framt að koma okk­ur á alþjóðlega óperu­kortið. Það er mjög góð til­finn­ing að sjá að þessi mark­mið sem ég setti mér á sín­um tíma hafi orðið að veru­leika,“ seg­ir Stein­unn Birna.


Viðtalið við Stein­unni Birnu birt­ist fyrst á menn­ing­arsíðum Morg­un­blaðsins laug­ar­dag­inn 14. maí. 

Eftir Elfa Sif Logadóttir 9. maí 2023
Söngvur­um í óper­unni Madama Butterfly var ákaft fagnað í Hörpu á lokasýningunni síðastliðinn laugardag. Þá sér­stak­lega söng­kon­unni Hye-Youn Lee, sem fór með aðal­hlut­verk Cio-Cio San í sýn­ing­unni. Sýningin fékk frábærar viðtökur meðal gagrýnanda og áhorfenda sem sáu sýninguna. Íslenska óperan þakkar öllum kærlega fyrir komuna.
Eftir Elfa Sif Logadóttir 28. nóvember 2022
Það vantaði ekki upp á stemn­ing­una og voru tón­leika­gest­irn­ir hver öðrum glæsi­legri.
ALLAR FRÉTTIR
Share by: