Um sýninguna

Söguþráður óperunnar Sweeny Todd - Rakarinn morðóði er krassandi í meira lagi: Sweeney Todd hefur snúið heim til London til að hefna harma. Hann tekur upp fyrri iðju sem bartskeri, en nú sker hann fleira en hár og skegg og eiga ekki allir viðskiptavinir afturkvæmt úr stólnum hjá honum. Á neðri hæðinni hefur frú Lóett nú loks fengið úrvals hráefni í gómsætar kjötbökur sínar sem seljast hraðar en nokkru sinni fyrr. Sögusviðið er London á tímum iðnbyltingarinnar, þar sem Lundúnaþokan alræmda er þykkari en nokkru sinni og persónurnar stjórnast af heitum og sterkum tilfinningum. 

Í aðalhlutverkum má jafnt sjá söngvara sem oft hafa sungið á sviði Íslensku óperunnar sem og aðra sem koma þar nú fram í fyrsta sinn. Með titilhlutverkið, Sweeney Todd, fer Ágúst Ólafsson, og er þetta fyrsta hlutverk hans hjá Íslensku óperunni. Ingveldur Ýr Jónsdóttir syngur hlutverk frú Lóett og í öðrum helstu hlutverkum eru Maríus Sverrisson, sem syngur nú í fyrsta sinn í Íslensku óperunni, Hulda Björk Garðarsdóttir, Davíð Ólafsson, Þorbjörn Rúnarsson, Snorri Wium, Sesselja Kristjánsdóttir og Örn Árnason leikari, en sá síðastnefndi þreytir nú frumraun sína á sviði Óperunnar. Leikstjóri er Magnús Geir Þórðarson og hljómsveitarstjóri Kurt Kopecky. Snorri Freyr Hilmarsson hannar leikmynd, aðstoðarleikmyndahönnuður er Stígur Steinþórsson, Filippía Elísdóttir hannar búninga og Þórður Orri Pétursson hannar lýsingu. Íslensk þýðing á lausu máli og bundnu er eftir Gísla Rúnar Jónsson. 

Þetta er í fyrsta sinn sem óperan Sweeney Todd er sett upp hér á landi, en verk Sondheims sjást reglulega á fjölum leikhúsa og óperuhúsa í Evrópu og Bandaríkjunum. Óperan var frumsýnd í New York árið 1979 og hefur verið sýnd víða um heim á síðastliðnum aldarfjórðungi. 

Vakin er athygli á því að atriði í sýningunni eru alls ekki við hæfi barna.

Listrænt teymi

Hljómsveitarstjóri
Leikmyndahönnuður
Búningahönnuður
Ljósahönnuður
Aðstoðarleikmyndahönnuður

Hlutverk

Sweeney Todd
Anthony Hope
Turpin dómari
Tóbías
Fuglasölumaður
Adolfo Pirelli

Aðrar sýningar

Ragnheiður

Ragnheiður

2014

Brúðkaup Fígarós

2004