Um sýninguna

La Bohème er vorverkefni Íslensku óperunnar á árinu 2012. Þetta þekkta verk Giacomo Puccini er ein elskaðasta ópera allra tíma. Hún sló í gegn um leið og hún var frumsýnd í Torino á Ítalíu árið 1896 og fór eins og eldur í sinu um allan heim fljótlega eftir það og var sett upp um alla Ítalíu, í Buenos Aires, London, Berlín, París og Prag strax á næstu tveimur árum eftir frumsýningu. Enn í dag skipar hún fjórða sætið á lista yfir þær óperur sem oftast eru settar á svið og er því óhætt að segja að hún hafi unnið hug og hjörtu óperugesta um allan heim allar götur síðan hún var frumsýnd fyrir rúmum hundrað árum. Í þessari frægu ástarsögu segir frá hópi bóhema í París á síðari hluta 19. aldar, sem þrátt fyrir fátækt og vosbúð kunna að njóta lífsins til hins ítrasta. En það skiptast ennfremur á skin og skúrir í lífi unga fólksins og eins og í svo mörgum óperum endar sagan með harmrænum hætti. Óperan er sungin á ítölsku með íslenskri þýðingu varpað á skjá.

Tónlist Puccinis er lífleg, heillandi og afar aðgengileg og kannast margir til að mynda við hina frægu tenóraríu „Che gelida manina (Hve köld hönd þín er) og sópranaríuna „Sì, mi chiamano Mimì (Já, ég er kölluð Mimì), sem þykja með fegurstu perlum óperubókmenntanna.

Að uppfærslu Íslensku óperunnar nú standa Daníel Bjarnason sem hljómsveitarstjóri, Jamie Hayes sem leikstjóri og Will Bowen sem leikmyndahönnuður, en þeir Jamie og Will unnu einnig saman að uppsetningum Íslensku óperunnar á Macbeth Verdis og Toscu Puccinis á síðastliðnum áratug, sem þótti afar áhrifamiklar og glæsilegar sýningar. Búninga hannar ókrýnd drottning búningahönnunar á Íslandi, Filippía I. Elísdóttir, og lýsingu hannar Björn Bergsteinn Guðmundsson.

Í aðalhlutverkum eru Hulda Björk Garðarsdóttir sem Mimì, og Gissur Páll Gissurarson sem Rodolfo, en Þóra Einarsdóttir og Garðar Thór Cortes syngja einnig hlutverkin á tveimur sýningum. Þá syngur Ágúst Ólafsson hlutverk Marcello, Hrólfur Sæmundsson hlutverk Schaunard, Jóhann Smári Sævarsson hlutverk Colline, Bergþór Pálsson syngur hlutverk Benôit og Alcindoro, og Herdís Anna Jónasdóttir, sem lauk nýverið námi frá hinum virta Hanns-Eisler tónlistarháskóla í Berlín, syngur hlutverk Musettu. Þá syngur Kór Íslensku óperunnar í sýningunni, auk þess sem barnakór tekur þátt í uppfærslunni. Hljómsveit Íslensku óperunnar leikur og er konsertmeistari Sigrún Eðvaldsdóttir.

Alls verða sex sýningar á La Bohème í vor. Frumsýning verður föstudaginn 16. mars, og síðan verða sýningar laugardaginn 17. mars, laugardaginn 31. mars, sunnudaginn 1. apríl, laugardaginn 14. apríl og föstudaginn 20. apríl. Allar sýningar verða að sjálfsögðu í Eldborg og hefjast kl. 20. Nánari upplýsingar um sýningardagsetningar og hlutverkaskipan má finna hér til vinstri á síðunni.

Aðrar sýningar

Öskubuska

Öskubuska

2006
La Traviata 2021 - Án ramma

La traviata

2021