Um sýninguna

Einhver vinsælasta og ástríðuþrungnasta ópera allra tíma - Carmen eftir Georges Bizet - verður frumsýnd hjá Íslensku óperunni þann 19. október næstkomandi, en óperan hefur ekki verið sviðsett hérlendis í tæpa þrjá áratugi.

Carmen er saga um ástríður, átök og hefnd. Verkið gerist á Spáni. Ungi hermaðurinn Don José, sem er heitbundinn ungri stúlku, Mikaelu, heima í sveitinni sinni, kemur til borgarinnar í herþjónustu og fellur fyrir töfrum hinnar glæsilegu Carmenar, sem starfar í sígarettuverksmiðju. Hann bjargar henni úr vanda og með  þeim takast ástir. En ekki líður á löngu uns Carmen fær meiri áhuga á glæsilegum nautabana, Escamillo, og snýr baki við Don José. Hann sættir sig ekki við afneitun hennar og grípur til örþrifaráða. Óperan er ein frægasta ópera sögunnar og vart til sá maður sem kannast ekki við þekktustu tónlistina úr verkinu.

Margir af okkar fremstu óperusöngvurum fara með hlutverk í óperunni, en einnig  munu nokkrir kornungir söngvarar þreyta frumraun sína á íslensku óperusviði. Hljómsveitarstjóri er  Guðmundur Óli Gunnarsson, leikstjóri Jamie Hayes og leikmyndahöfundur Will Bowen en tveir þeir síðastnefndu voru ábyrgir fyrir hinni geysivinsælu og verðlaunuðu sýningu Íslensku óperunnar á La Boheme fyrir rúmu ári. Björn Bergsteinn Guðmundsson lýsir sýninguna og búningahönnuður er Helga I. Stefánsdóttir.

Í titilhlutverkinu verða Hanna Dóra Sturludóttir, sem um árabil hefur sungið í þýskumælandi löndum við góðan orðstír og Sesselja Kristjánsdóttir, sem sungið hefur mörg óperuhlutverk hjá Íslensku óperunni.

Þeir Kolbeinn Jón Ketilsson og Garðar Thór Cortes skiptast á að syngja Don José en þess má geta að Kolbeinn hefur sungið þetta hlutverk oftar en nokkurt annað hlutverk á ferli sínum og mun hafa sungið það í einum sex uppfærslum óperuhúsa víðsvegar um Evrópu. Með hlutverk nautabanans Escamillo fer Hrólfur Sæmundsson, sem hefur verið fastráðinn við óperuna í Aachen síðustu misseri, en hinn bráðefnilegi baritónsöngvari Kristján Jóhannesson mun einnig syngja hlutverkið. Hann er aðeins tvítugur að aldri og í þann mund að hefja framhaldsnám í Vínarborg.

Með hlutverk Mikaelu, unnustu Don José, fara þær Hallveig Rúnarsdóttir og Þóra Einarsdóttir. Bassasöngvararnir Bjarni Thór Kristinsson og Viðar Gunnarsson skipta á milli sín hlutverki Zuniga liðsforingja. Í hlutverkum vinkvenna Carmenar verða Lilja Guðmundsdóttir sem þreytir hér frumraun sína á vegum Íslensku óperunnar og Valgerður Guðnadóttir, sem hefur sungið nokkur óperuhlutverk hjá Óperunni en er ekki síður kunn fyrir frammistöðu sína í söngleikjum ma. Söngvaseið og Vesalingunum. Í smyglaragenginu verða í forsvari  Snorri Wium og Ágúst Ólafsson en báðir hafa getið sér gott orð í sýningum Óperunnar á undanförnum árum. Loks má nefna enn einn nýliðann, Jóhann Kristinsson, sem syngur Morales.

Þrjátíu og sex manna Kór Íslensku óperunnar, barnakór og sextíu manna sinfóníuhljómsveit taka einnig þátt í sýningunni ásamt nokkrum dönsurum.

Frumsýningin verður 19. október og eru fyrirhugaðar sex sýningar.

Listrænt teymi

Hljómsveitarstjóri
Leikstjóri
Leikmyndahönnuður
Búningahönnuður
Danshöfundur
Danshöfundur

Aðrar sýningar

eo-web.jpg

Évgení Onegin

2016
Öskubuska

Öskubuska

2006