Um sýningunaÍslenska óperan mun sýna óperuna Brothers eftir Daníel Bjarnason í samstarfi við Den Jyske Opera og Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu á Listahátíð í Reykjavík í júní 2018.


Verkið sem fjallar um stríð, bræðralag og ástir, er byggt á samnefndri kvikmynd eftir Susanne Bier sem margir þekkja og librettóið er eftir Kerstin Perski.

Óperan, sem er fyrsta ópera tónskáldsins, var frumsýnd 16. ágúst 2017 í Musikhuset í Árósum og hlaut frábærar viðtökur áheyrenda og einróma lof gagnrýnenda. Leikstjóri uppfærslunnar er Kasper Holten sem lét nýverið af störfum sem óperustjóri Covent Garden og tekur við sem leikhússtjóri Det Kongelige Teater haustið 2018.  Um er að ræða sömu uppfærslu en flytjendur í Eldborg verða flestir íslenskir.

„Það er vel við hæfi að á 100 ára fullveldisafmæli Íslands sé sett upp glæsilegt íslenskt/ danskt samstarfsverkefni sem þetta, enda stór viðburður í okkar tónlistarsögu. Þarna er um magnað verk og stórbrotna uppfærslu að ræða sem verður virkilega spennandi að geta boðið íslenskum áhorfendum að njóta þess" - segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri Íslensku óperunnar.

Óperan er flutt á ensku og er um 100 mínútur í flutningi án hlés.


SÖGUÞRÁÐURINN


Hermennirnir Michael og Peter eru sendir á vígvöllinn. Michael fer frá Söru eiginkonu sinni og dóttur, Nadiu,  og Peter frá eiginkonu sinni Önnu, sem er barnshafandi.

Þeir Michael og Peter eru taldir af þegar þyrla þeirra er skotin niður af óvinahernum. Minningarathöfn er haldin þeim til heiðurs. Spennu verður vart í fjölskyldu Michaels þegar kemur upp á yfirborðið að faðir Michaels hefur  meira dálæti á honum en yngri bróðurnum, Jamie, og segir að Jamie hefði frekar átt að deyja en Michael.

Jamie vekur Söru upp um miðja nótt, hann er drukkinn og blóðugur eftir slagsmál. Sara hjálpar honum að hreinsa sárin. Þau rífast heiftarlega í fyrstu en sameinast síðan í því að syrgja Michael.  Þau faðmast og halda hvort í annað eins og drukknandi manneskjur.

 Michael hefur í raun lifað þyrluslysið af og snýr aftur. Anna, sem hefur alið barnið, vonast til þess að Peter muni þá líka snúa til baka. Yfirmaður Peters, ofurstinn, talar við Michael og spyr hann út í týndu hermennina. Michael heldur því fram að hann hafi ekki séð fleiri hermenn á lífi þar sem hann hafi sjálfur verið í haldi óvinahersins.

Michael virðist fjarrænn og honum reynist erfitt að aðlagast daglegu lífi. Nadia kvartar við móður sína yfir háttalagi föður síns. Jamie lagfærir rólu Nadiu og það er augljóst að hann og Sara eru orðin náin. Michael er afbrýðissamur og reiður út í Jamie og Söru og bregst á ofsafenginn hátt við því þegar dóttir hans Nadia óhlýðnast honum.  

Eftir að hafa misst stjórn á sér  ítrekað og vegið að Söru, játar Michael fyrir ofurstanum að hafa séð Peter á lífi. Ofurstinn biður hann um að þegja yfir þessari vitneskju og hætta að kvelja sjálfan sig. Á sama tíma birtist Sara heima hjá Jamie. Þau þrá hvort annað.

Í afmælisveislu Nadiu missir Michael algjörlega stjórn á sér. Hann gengur út til að hafa uppi á Önnu. Michael fær sig ekki til að játa hver örlög Peters urðu áður en honum sjálfum var bjargað. Þegar Michael kemur aftur í afmælisveisluna birtist honum draugur Peters og að endingu afhjúpar hann sannleikann og segir frá því sem gerðist í raun og veru: að hann hafi verið neyddur til þess að drepa Peter til þess að bjarga eigin lífi. 

Myndir

  • Brothers

Listrænt teymi

Leikstjóri
Hljómsveitarstjóri
Leikmyndahönnuður
Ljósahönnuður
Myndbandshönnuður
Aðstoðarleikstjóri

Hlutverk

Sarah
Jamie, bróðir Michaels
Anna eiginkona Peters
Peter
Faðirinn
Ofurstinn

Aðrar sýningar

Örlagaþræðir

Örlagaþræðir

2020
Rakarinn frá Sevilla

Rakarinn frá Sevilla

2015