Ástardrykkurinn

eftir Gaetano Donizetti
Frumsýning 25. október 2009

Um sýninguna

Tónskáld Gaetano Donizetti   Líbrettó Felice Romani   Tungumál Ítalska   Þættir 2   Hlé 1

Ástardrykkurinn eftir Donizetti er bráðskemmtileg gamanópera, sem fjallar um tilraunir ungs manns til að vinna hug ungrar konu. Þegar allt annað bregst leitar hann á náðir kuklara nokkurs sem útvegar honum svokallaðan ástardrykk. Að lokum fer þó allt vel, eins og svo oft í óperum, og hin sanna ást sigrar að lokum.

Einvalalið ungra íslenskra söngvara syngur aðalhlutverkin í sýningunni. Með hlutverk unga mannsins, Nemorino, fer Garðar Thór Cortes, með hlutverk ungu stúlkunnar, Adinu, fer Dísella Lárusdóttir, kuklarann Dulcamara syngur Bjarni Thor Kristinsson, og í hlutverki keppinautarins Belcore er Ágúst Ólafsson. Með hlutverk vinkonunnar Gianettu fer Hallveig Rúnarsdóttir. Þá syngja þau Þóra Einarsdóttir og Gissur Páll Gissurarson einnig hlutverk Adinu og Nemorino á sýningatímabilinu.

Sama listræna stjórn og stóð að hinni vel heppnuðu uppfærslu á Cosí fan tutte Mozarts í Óperustúdíói Íslensku óperunnar vorið 2008 stendur að uppfærslunni á Ástardrykknum; þau Ágústa Skúladóttir leikstjóri, Guðrún Öyahals leikmyndahönnuður, Katrín Þorvaldsdóttir búningahönnuður og Páll Ragnarsson ljósahönnuður. Hljómsveitarstjóri er líkt og þá Daníel Bjarnason. Þá tekur kór og hljómsveit Íslensku óperunnar ennfremur þátt í sýningunni.

Listrænir stjórnendur

Hljómsveitarstjóri
Daníel Bjarnason
Búningahönnuður
Katrín Þorvaldsdóttir
Leikmyndahönnuður
Guðrún Öyahals
Ljósahönnuður
Páll Ragnarsson