Siðareglur

 • Við komum fram við hvort annað af kurteisi og virðingu, líka þegar við erum ósammála.
 • Samskipti okkar eru opin og heiðarleg en um leið höfum við nærgætni og samhygð að leiðarljósi.
 • Við störfum í anda mannréttinda og mismunum ekki fólki vegna kyns, þjóðernis, trúarbragða, litarháttar né kynhneigðar.
 • Við tökum ekki þátt í né stöndum fyrir meiðandi umtali og höfum að leiðarljósi virðingu fyrir okkur sjálfum og þeim sem við störfum með.
 • Við sýnum hjálpsemi og stuðning þeim sem við störfum með og leggjum okkur fram um að reynast góðir starfsfélagar.

Stefna Íslensku óperunnar varðandi einelti og áreitni

Markmið stefnu og viðbragðsáætlunar gegn einelti, kynferðislegri, kynbundinni áreitni og ofbeldi er að koma í veg fyrir þessa hegðun og tryggja að úrræði séu til staðar ef einhver telur sig hafa orðið fyrir slíku.

 • Það er stefna Íslensku óperunnar að búa starfsfólki öruggt starfsumhverfi þar sem öllum getur liðið vel. Áhersla er lögð á góðan starfsanda þar sem ríkir samstaða, traust og trúnaður.
 • Starfsfólk og stjórnendur bera sameiginlega ábyrgð á því að skapa ánægjulegt og faglegt starfsumhverfi þar sem grunntónninn endurspeglar gildi Íslensku óperunnar sem eru; fagmennska, frumkvæði, gleði og samvinna.
 • Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni, ofbeldi eða önnur óviðeigandi eða ósæmandi framkoma sem veldur vanlíðan á vinnustað er ekki liðin. ÍÓ mun grípa til viðeigandi aðgerða ef upp koma slík tilvik og setja þau í faglegan farveg.

Upplifun hvers og eins skiptir meginmáli þegar um slík tilvik er að ræða og viðkomandi verður sjálfur að meta hvort honum sé misboðið og láta vita af ósæmilegri hegðun. Hafa ber í huga að einstaklingur getur verið ómeðvitaður um að hegðun hans sé óviðeigandi eða valdi vanlíðan og því er mikilvægt að setja skýr mörk og tjá sig við gerendur ef þeim mislíkar framkoma eða hegðun þeirra. Ef viðkomandi treystir sér ekki til þess að tala við viðkomandi ætti hann að leita aðstoðar eða eftir atvikum að tilkynna um atvikið.

Skilgreining ÍÓ á einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi styðst við reglugerð nr. 1009/2015 en þar segir í 3. gr.:

 • Einelti er síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
 • Kynferðisleg áreitni er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
 • Kynbundin áreitni er hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi.
 • Ofbeldi er hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða sviptingu frelsis. ÍÓ er í samstarfi við fagaðila þangað sem þeir geta leitað sem telja sig hafa orðið fyrir einhverju af ofangreindu, í samráði við stjórnendur ÍÓ.

Viðbragðsáætlun ÍÓ

Ef starfsmaður eða þátttakandi í verkefnum á vegum ÍÓ telur að lög eða siðareglur hafi verið brotnar getur hann leitað til sýningarstjóra (syningarstjori@opera.is), trúnaðarmanna hverrar uppfærslu eða stjórnenda sem koma málinu í réttan farveg.

Í samráði við þolanda er ákveðið hvort bregðast skuli við með óformlegum hætti eða hvort málið kalli á formlega málsmeðferð. Stjórnendum ber að uppfylla þær skyldur að koma í veg fyrir að ótilhlýðileg hegðun endurtaki sig og setja mál í viðeigandi farveg í samráði við þolendur. Stjórnendur eru bundnir fyllsta trúnaði gagnvart þeim sem til þeirra leita.

Brot á ofangreindum atriðum eða siðareglum munu verða sett í faglegan farveg svo þau séu hafin yfir vafa og viðbrögð í samræmi við tilefni.

ÍÓ er í samstarfi við utanaðkomandi fagaðila þangað sem þeir geta leitað sem telja sig þurfa aðstoð, í samráði við stjórnendur ÍÓ.

Viðbragðsáætlun og siðareglur eru kynntar fyrir starfsfólki og listamönnum og verða aðgengilegar á heimasíðu ÍÓ.

Hver sá sem tekur þátt í starfsemi ÍÓ ábyrgist að virða þessar reglur þegar samningur er undirritaður. Brot geta varðað brottrekstur.