Í fyrsta sinn í óperunni

Sumir velta því ef til vill fyrir sér hvort að það gildi einhverjar skrifaðar eða óskrifaðar reglur þegar farið er á óperusýningar. Þrátt fyrir að sú sé ekki raunin þá eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga sértu að fara í fyrsta skipti í Óperuna. Hér að neðan eru svör við nokkrum spurningum sem kunna að koma upp hjá gestum sem eru að fara á sína fyrstu óperusýningu.

Um hvað er óperan?

Þegar farið er á óperusýningu er gott að vera búin að kynna sér verkið sem farið er á t.d. með því að hlusta á tónlistina á geisladiski eða horfa á óperuna á Videó eða DVD diski. Þannig gefst þér tækifæri til að kynnast verkinu í ró og næði áður en þú mætir í Óperuna og upplifir sýninguna í allri sinni dýrð. Það er oft í mörg horn að líta á sýningunni sjálfri og þá getur verið gott að þekkja svolítið til verksins svo að þú njótir sýningarinnar sem best.

Hvar eru bestu sætin?

Þú getur keypt þér miða í Óperuna með því að hafa samband við miðasölu Hörpu í síma 528-5050. Einnig getur þú keypt miða hér á vefnum og á harpa.is. Það eru fjórir verðflokkar á sætum á sýningar Íslensku óperunnar í Eldborg. Það er smekksatriði hvar fólki finnst best að sitja. Sumir vilja eingöngu sitja niðri í salnum á meðan öðrum finnst best að sitja uppi á svölunum. Þó eru flestir sammála um að það sé betra að sitja nálægt miðju heldur en út til hliðanna. Það er um að gera að prófa sig áfram til að komast að því hvar þér finnst best að sitja. Mundu bara að vera tímanlega í að panta þér miða ef þú vilt einhver sérstök sæti.

Síðkjóll eða kjóll og hvítt?

Það eru engar reglur um það hvernig maður á að klæðast þegar farið er á óperusýningar. Þó finnst mörgum gaman að klæða sig upp á þegar farið er í Óperuna og sumir álíta það vera hluta af upplifuninni að mæta í sínu fínasta pússi. Það er þó engin skylda að mæta í galakjól eða jakkafötum á óperusýningar. Það er mikilvægast að þú sért í fötum sem þér líður vel í og aðalatriðið er að þú getir leyft þér að hverfa á vit tilfinninganna og njótir þess að horfa og hlusta á frásögnina sem lifnar við á sviðinu.

Lúslestu leikskrána!

Það getur verið mjög gott að hafa leikskrána við hendina til að glugga í áður en sýningin hefst. Þar getur þú séð hverjir það eru sem syngja helstu hlutverkin og lesið söguþráð óperunnar. Einnig eru í leikskránni greinar sem tengjast verkinu og uppfærslunni á einn eða annan hátt eins og til dæmis viðtal við leikstjóra eða einhverja af aðstandendum sýningarinnar sem og tilvísanir á frekari greinar og fróðleik um sýninguna og efni tengt henni sem birtist á óperuvefnum.

Komdu tímanlega...eða vertu úti :)

Það getur verið gott að mæta a.m.k 30 mínútum áður en sýningin hefst, einkum ef að þú ert ekki búin að sækja miðana þína, því að oft myndast röð í miðasölunni rétt fyrir sýningu. Einnig er gott að geta gefið sér tíma til að hengja upp yfirhafnirnar í fatahenginu, glugga aðeins í leikskrána og jafnvel fá sér eitthvað að drekka á barnum og njóta andrúmsloftsins í Hörpu áður en sýningin hefst. Einnig eru kynningar oft fyrir sýningar nema á frumsýningunni sem gaman og fróðlegt er að sækja. Það er engum hleypt inn í salinn eftir að sýningin hefst.

Hvenær á ég eiginlega að klappa?

Það er hefð fyrir því í flestum óperuhúsum að klappa fyrir hljómsveitarstjóranum þegar hann kemur í hljómsveitargryfjuna áður en sýningin hefst nema í sérstökum tilfellum og sami háttur er hafður á þegar hljómsveitarstjórinn gengur inn eftir hlé. Einnig er hefð fyrir því að klappa fyrir einsöngvurunum þegar þeir hafa lokið við að syngja ákveðnar aríur. Flestar óperur eru í tveimur til þremur þáttum og þá er klappað eftir hvern þátt.

Tungumálið

Yfirleitt eru óperur sungnar upprunalegu tungumáli. Það kemur þó ekki að sök þó að þú skiljir ekki það tungumál sem sungið er á því að íslenskum texta er varpað á spjald fyrir ofan sviðið. Þannig að hægt er að lesa íslenska þýðingu á textanum sem birtist jafnóðum og hann er sungin auk þess sem textanum er varpað upp á ensku fyrir þá sem ekki skilja Íslenskuna. Þó svo að óperur séu þýddar og sungnar á íslensku er textanum einnig varpað upp á tjald þar sem ekki er alltaf auðvelt að greina orðaskil þegar sungið er, sérstaklega í samsöngsatriðum og þegar sungið er af mikilli innlifun.

Láttu í þér heyra!

Samkvæmt ítalskri hefð hrópa óperugestir BRAVO þegar þeir fagna karlsöngvara. Þeir hrópa síðan BRAVA þegar söngkonu er fagnað. Þegar fagna á karli og konu, tveimur körlum eða kór þykir BRAVI viðeigandi upphrópun. Þegar konurnar eru tvær eða fleiri er hins vegar hrópað BRAVE, sértu hinsvegar yfirkominn af hrifningu geturðu bara hrópað hvað sem þér býr í brjósti!