Stjórn Íslensku óperunnar hefur endurráðið Steinunn Birnu Ragnarsdóttur í stöðu óperustjóra

6. september 2018 | Fréttir og tilkynningar

steinunn birna ragnarsdóttir

Stjórn Íslensku óperunnar hefur endurráðið Steinunni Birnu Ragnarsdóttur í stöðu óperustjóra Íslensku óperunnar fyrir næsta ráðningartímabil þar til í júní 2023.

Óperustjóri hefur með höndum listræna stjórnun Íslensku óperunnar og ber ábyrgð á öllum rekstri stofnunarinnar.

Steinunn Birna hefur verið virk í listalífi landsins um árabil bæði sem píanóleikari, listrænn stjórnandi Reykholtshátíðar og Tónlistarstjóri Hörpu. Hún lauk nýlega þriggja ára framhaldsnámi frá háskólanum í Maryland á vegum DeVos Institute of Arts Management fyrir framúrskarandi listræna leiðtoga og stjórnendur listastofnanna, en hún var valin árið 2016 ásamt 12 listrænum stjórnendum frá ýmsum löndum af nokkur hundruð tilnefningum. Steinunn Birna er fyrsti norræni stjórnandinn sem útskrifast, en námið miðar að því að hámarka árangur þátttakenda í starfi, en þeir vinna m.a. að því að stefnumóta og efla þær stofnanir sem þeir stjórna á námstímanum. Áhersla er lögð á framúrskarandi listviðburði, langtímaskipulagningu ásamt markvissri markaðssetningu, uppbyggingu baklands, tekjuöflun og stöðugleika í rekstri.

Meðfram náminu, sem allt er kostað af stofnuninni, heimsækja þátttakendur ýmsar listastofnanir í Bandaríkjunum, en auk þess eru árlega nokkurra vikna staðarlotur við Maryland háskólann í Washington DC.

„Það er heiður að vera treyst fyrir starfi óperustjóra áfram á næsta tímabili og ég hlakka mikið til þess að taka næstu skref við að byggja upp framtíð Íslensku óperunnar. Mitt leiðarljós í þessu starfi hefur verið að sameina listrænan metnað og stöðugleika í rekstri og jafnframt að efla alþjóðleg tengsl og orðspor Íslensku óperunnar út á við og það er mjög gefandi að sjá þau markmið verða að veruleika. Það eru lífsgæði að vinna við það sem manni finnst svo skemmtilegt að maður getur ekki beðið eftir að takast á við viðfangsefni hvers dags” segir Steinunn Birna.

“Við eigum mikinn mannauð í Íslenskum söngvurum og mín framtíðarsýn og markmið er að Íslenska óperan geti fjölgað uppfærslum og búið við aðstæður þar sem hún getur starfað á eigin forsendum og mótað sína framtíð, sem hefur alla burði til að vera mjög björt”.

Pétur J. Eiríksson stjórnarformaður Íslensku óperunnar leggur áherslu á að starfsemi ÍÓ hafi gengið mjög vel undir stjórn Steinunnar Birnu, bæði hvað varðar listræna þáttinn þar sem sýningarnar hafa fengið frábærar móttökur og gagnrýni bæði innan lands og erlendis ásamt því að vera mjög vel sóttar. „Það er fagnaðarefni að Steinunn Birna muni taka að sér að leiða stofnunina áfram enn um sinn, en rekstur hennar gengur mjög vel og tilhlökkunarefni að sjá hvaða metnaðarfullu verkefni verða  á boðstólum hjá Íslensku óperunni á næstu árum“ segir Pétur J. Eiriksson.

ÍÓ mun hefja starfsárið 2018-2019 á óperunni Hans og Grétu eftir Engibert Humperdinck sem er ævintýri fyrir hugrökk börn á öllum aldri, en stóra uppfærsla starfsársins verður La Traviata eftir Verdi sem verður frumsýnd 9. mars í Eldborg. Síðan hefur uppfærslu ÍÓ á óperunni Brothers eftir Daníel Bjarnason verið boðið að vera opnunarviðburður Armel óperuhátíðarinnar í Búdapest 2. júlí 2019 sem er mikill heiður.