Íslenska óperan leggur land undir fót - Mannsröddin sýnd í Vestmannaeyjum

13. apríl 2018 | Fréttir og tilkynningar

Mannsröddin mynd

Það er með mikilli tilhlökkun sem Íslenska óperan heldur í sýningarferð til Vestmannaeyja, en uppfærsla ÍÓ á Mannsröddinni eftir Poulenc í leikgerð og leikstjórn Brynhildar Guðjónsdóttur verður sýnd í Menningarhúsinu Kviku þann 10.maí næstkomandi.
Sýningin var frumsýnd hjá Íslensku óperunni í Hörpu þann 27.febrúar 2017 og fékk feykigóðar viðtökur og gagnrýni. Það er því sönn ánægja að geta deilt þessari sýningu með gestum í Vestmannaeyjum.

Óperan Mannsröddin (La Voix Humaine) eftir franska tónskáldið Francis Poulenc var samin árið 1958 og er byggð á samnefndu leikriti eftir Jean Cocteau. Óperan er dramatískur einþáttungur sem lýsir síðasta símtali konu til elskhuga síns sem hefur slitið sambandinu eftir fimm ár. Um er að ræða nýja og ferska nálgun á verkið þar sem aðalpersónan, Elle, er túlkuð samtímis af þeim Auði Gunnarsdóttur sópransöngkonu og Elvu Ósk Ólafsdóttur leikkonu í sviðsetningu og leikstjórn Brynhildar Guðjónsdóttur. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem óperunni og leikritinu er fléttað saman á þennan hátt og hér er farið með áhorfandann í hrífandi óvissuferð um allan mannlega tilfinningaskalann. 

Píanóleikari: Eva Þyri Hilmarsdóttir
Búningar og leikmynd: Helga I. Stefánsdóttir
Ljósahönnuður:  Pálmi Jónsson
Myndbandshönnuður: Elmar Þórarinsson

Leikritið er í nýrri þýðingu Kristjáns Þórðar Hrafnssonar.

Miðasala á viðburðinn er hafin - tryggið ykkur miða hér