Bjarni Frímann Bjarnason skipaður tónlistarstjóri Íslensku óperunnar frá 1. janúar 2018

8. desember 2017 | Fréttir og tilkynningar

Bjarni Frímann

Bjarni Frímann Bjarnason hljómsveitarstjóri og tónlistarmaður hefur verið skipaður tónlistarstjóri Íslensku óperunnar frá og með 1. janúar 2018. Hann mun stjórna uppfærslum Íslensku óperunnar á næstu starfsárum, auk þess að annast ýmsa aðra þætti fyrir Íslensku óperuna sem varða tónlistarstarfsemina.

„Það er mikill fengur að því að fá Bjarna Frímann til liðs við Íslensku óperuna, við leggjum sérstakan metnað í að styðja við ungt listafólk eins og frekast er kostur og gefa þeim verðug tækifæri“ segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri. 

Bjarni Frímann stjórnaði nýverið uppfærslunni á Toscu með miklum ágætum og hlaut einróma lof fyrir. Það var hans fyrsta stóra verkefni sem hljómsveitarstjóri hérlendis.

Bjarni Frímann stundaði fiðlunám frá unga aldri. Hann lauk prófi í lágfiðluleik frá Listaháskóla Íslands og sigraði einleikarakeppni Listaháskóla Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 2009 og lék einleik í lágfiðlukonsert Bartóks með hljómsveitinni.

Hann stundaði nám í hljómsveitarstjórn undir handleiðslu Fred Buttkewitz við Hanns Eisler tónlistarháskólann í Berlín og hefur stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, CAPUT og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins.  Bjarni Frímann stjórnaði flutningi á óperunni UR eftir Önnu Þorvaldsdóttir við óperuna í Osló, í Chur og Basel og einnig á Listahátíð í Reykjavík.

Bjarni hefur einnig samið tónlist fyrir leikhús og kvikmyndir bæði hérlendis og erlendis. 

Hann hefur komið víða fram með söngvurum sem píanóleikari og kammertónlistarmaður m.a. með Berlínarfílharmóníunni í Konzerthaus í Vín. Árið 2012 vann hann fyrstu verðlaun í Hanns Eisler-keppninni í Berlín fyrir frumflutning á píanótilbrigðum eftir Viktor Orra Árnason.

Bjarni Frímann var útnefndur Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2016. Árið 2016 -2017 stjórnaði hann hljómsveitartónleikum með Björk Guðmundsdóttur í Mexíkóborg, Fílharmóníunni í LA og í Hörpu en Bjarni vinnur reglulega með Björk sem hljómsveitarstjóri.

Á síðasta starfsári var Bjarni Frímmann aðstoðarhljómsveitarstjóri hjá Íslensku óperunni í uppfærslunni á Évgeni Onegin og aðalhljómsveitarstjóri í uppfærslu ÍÓ á Toscu haustið 2017.

Í gagnrýni um uppfærsluna kom eftirfarandi m.a. fram: „Bjarni Frímann Bjarnason stjórnaði uppfærslunni af aðdáunarverðri fagmennsku“

Jónas Sen Fréttablaðið 8.11.2017

„Bjarni Frí­mann Bjarna­son var stjarna kvölds­ins! Tón­list­ar­kreðsan ís­lenska hafði beðið lengi eft­ir frum­raun þessa ótrú­lega hæfi­leika­ríka tón­list­ar­manns á óperu­sviðinu. Og hann stökk ekki yfir garðinn þar sem hann er lægst­ur; Tosca Pucc­in­is er stráð hindr­un­um, erfiðum og flókn­um skipt­ing­um þar sem engu má skeika svo sam­hæf­ing leiks og tón­list­ar gangi eðli­lega upp. Hljóm­sveit­in fylgdi ástríðufull­um stjórn­anda sín­um út í eitt og flutti tónlist sem maður skynjaði loks að á sér fáa hliðstæðu“

Ingvar Bates. 25.10.2017 Mbl