Íslenska óperan skilar jákvæðri rekstrarafkomu

26. nóvember 2018 | Fréttir og tilkynningar

Íslenska óperan

Stjórn Íslensku óperunnar hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu;

Íslenska óperan skilar jákvæðri rekstrarafkomu samkvæmt nýjum ársreikningi síðasta starfsárs 2017-2018. Aðsókn á viðburði Óperunnar hefur verið mjög góð og jókst um 28% á milli ára. Tekjurnar jukust um 23% frá fyrra ári, en Íslenska óperan fær árlegt framlag frá Mennta- og menningarráðuneytinu samkvæmt samningi og aflar eigin tekna með miðasölu sem jókst um 30% á milli ára og styrkjum frá fyrirtækjum og félögum sem einnig hækkuðu talsvert. Fastur rekstrarkostnaður hefur verið lækkaður um 30% og starfsemin endurskipulögð með það fyrir augum að reksturinn sé stöðugur og möguleikar geti orðið á uppsetningu fleiri óperuverkefna en verið hefur.

„ Ég setti mér það markmið þegar ég tók við starfi óperustjóra að vanda listræna þáttinn í uppfærslunum okkar svo þeir stæðust vel alþjóðlegan samanburð því sterkir listrænir viðburðir eru auðvitað mestu verðmæti hverrar listastofnunar. Einnig einsetti ég mér að rekstur Óperunnar skyldi verða stöðugur og það er mjög gefandi að sjá þessi markmið verða að veruleika. Mig langar að nota tækifærið og fjölga verkefnum á starfsárinu ásamt því að efla fræðslustarf og skólaheimsóknir sem hefur ekki verið svigrúm til þess að sinna að ráði hingað til.“ segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri, en hún tók við starfinu 2015 og hefur nýlega verið endurráðin til ársins 2023.

„ Við erum einstaklega stolt af þessum árangri og hlökkum til komandi ára hjá Íslensku óperunni, sem er eitt af flaggskipum íslenskra listastofnanna og hefur verið í tæplega 40 ár“ segir Pétur J. Eiríksson stjórnarformaður.

 

Reykjavík 26.11. 2018

 

Pétur J Eiríksson