Steinunn Birna Ragnarsdóttir

steinunn birna ragnarsdóttir

Steinunn Birna Ragnarsdóttir lauk einleikaraprófi á píanó árið 1981. Kennari hennar síðustu árin var Árni Kristjánsson. Hún lauk meistaragráðu frá New England Conservatory of Music í Boston árið 1987. Steinunn Birna hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir píanóleik sinn og verið virk í listalífi landsins um árabil bæði sem píanóleikari, stofnandi og listrænn stjórnandi Reykholtshátíðar fyrstu 15 árin og Tónlistarstjóri Hörpu frá 2010. Hún hefur gefið út margar geislaplötur og hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin. Steinunn lauk nýlega þriggja ára framhaldsnámi frá háskólanum í Maryland í boði DeVos Institute of Arts Management fyrir framúrskarandi listræna leiðtoga en hún var valin til þátttöku ásamt 12 listrænum stjórnendum frá ýmsum löndum úr hópi nokkur hundruð umsækjenda. Markmið námsins var að hámarka árangur stjórnenda í starfi og gera þeim kleift að stefnumóta þær stofnanir til framtíðar sem þeir stjórna á námstímanum. Steinunn Birna hefur gegnt starfi óperustjóra frá árinu 2015 og var nýlega endurráðin til ársins 2023.

Steinunn Birna á sæti í stjórn ISPA (International Society for the Performing Arts) og er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar samtakanna (Governance Committee). Hún kemur reglulega fram á ýmsum alþjóðlegum ráðstefnum og er formaður undirbúningsnefndar ISPA ráðstefnunnar í janúar 2019 sem haldin er árlega í New York.


Senda Steinunni Birnu tölvupóst