Viðar Gunnarsson

Viðar Gunnarsson

Viðar Gunnarsson stundaði tónlistarnám við Söngskólann í Reykjavík þar sem Garðar Cortes var aðalkennari hans og síðar framhaldsnám hjá dr. Folke Sällström í Stokkhólmi á árunum 1981 til 1984. Að námi loknu í Svíþjóð starfaði hann hjá bókaforlaginu Vöku-Helgafelli ásamt því að syngja reglulega við Íslensku óperuna frá 1984 og Þjóðleikhúsið frá 1985. Viðar var ráðinn óperusöngvari við Kammeróperuna og Schönbrunner Schloßtheater í Vínarborg 1989-1990 og var fastráðinn við Ríkisleikhúsið í Wiesbaden á árunum 1990 til 1995. Árið 1994 söng hann hlutverk Regins, Fáfnis og Högna í uppsetningu Þjóðleikhússins, Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Íslensku óperunnar og Listahátíðar á Niflungahringnum.

Á ferli sínum hefur Viðar komið fram í óperuhúsum víða um Evrópu, m.a. í Ríkisóperunni í Berlín, Bonn, Essen, Mannheim, Frankfurt, Stuttgart, Wiesbaden, Kassel, Dortmund, Genf, Bern, Vínarborg, Bregenz, Prag, Tel Aviv og Seoul í Suður-Kóreu. Meðal hlutverka sem Viðar hefur sungið eru Colline í La Bohème, Pater Guardiano í Á valdi örlaganna, Fiesco í Simon Boccanegra, Zaccaria í Nabucco, Grand´Inquisitor í Don Carlos, Il Re og Ramfis í Aidu, Sarastro í Töfraflautunni, Il Commendatore í Don Giovanni, titilhlutverkið í Boris Godunov, auk ólíkra hlutverka í mörgum af óperum Wagners. Viðar hefur komið fram sem einsöngvari með íslenskum og erlendum kórum, sem og með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Meðal hlutverka hans hjá Íslensku óperunni á undanförnum árum eru  Ferrando í Il Trovatore, Zuniga í Carmen, Brynjólfur biskup í Ragnheiði og Munkur (Karl V) í Don Carlo.

Hlutverk

 • Rakarinn frá Sevilla (2015)
  Don Basilio
 • Peter Grimes (2015)
  Swallow
 • Don Carlo (2014)
  Munkur
 • Ragnheiður (2014)
  Brynjólfur Sveinsson, biskup
 • Carmen (2013)
  Zuniga
 • Il Trovatore (2012)
  Ferrando
 • Töfraflautan (2011)
  Fyrsti prestur
 • Rakarinn frá Sevilla (2002)
  Don Basilio
 • Hollendingurinn fljúgandi (2002)
  Daland
 • La Bohème (2001)
  Colline