Þóra Einarsdóttir

Þóra Einarsdóttir

Þóra Einarsdóttir sópransöngkona hefur hlotið fjölda viðurkenninga og unnið til verðlauna á ferli sínum. Hún var valin söngkona ársins á Íslensku Tónlistarverðlaununum 2016, fyrir túlkun sína á Luonnotar eftir Sibelius undir stjórn Vladimir Ashkenazy og einnig árið 2017 fyrir frammistöðu sína sem Tatiana í Evgení Ónegin hjá Íslensku Óperunni. Þóra stundaði söngnám við Söngskólann í Reykjavík og framhaldsnám við Guildhall School of Music and Drama. Hún lauk MA gráðu í Listkennslu frá Lhí árið 2015.

Þóra hóf starfsferil sinn við Glyndebourne Festival Opera að námi loknu þá aðeins 23. ára. Auk fjölda hlutverka við Íslensku óperuna hefur Þóra sungið við Ensku Þjóðaróperuna, Opera North, Opera Factory og Hessishe Staatsoper Wiesbaden, en þar var hún fastráðinn söngvari í um átta ára skeið. Einnig hefur hún sungið við óperuhúsin í  Mannheim, Nürnberg, Darmstadt, Berlín, Basel, Genf, Lausanne, Prag, Salzburg, Bologna og Malmö. Meðal hlutverka Þóru eru Pamina í Töfraflautunni, Susanna í Brúðkaupi Figarós, Ilia í Idomeneo, Despina í Così fan tutte, Zerlina í Don Giovanni, Euridice í Orfeo ed Euridice, Cleopatra í Júlíus Cesar, Elmira í Croesus, Adina í Ástardrykknum, Marie í Dóttir herdeildarinnar, Gilda í Rigoletto, Mimi í La Bohème, Michaela í Carmen, Sophie í Rosenkavalier, Xenja í Boris Godunov, Adele í Leðurblökunni, Ännchen í Freischütz, Woglinde og Waldvogel í Niflungahringnum, Tatiana í Evgeny Onegin og Lucia í The Rape of Lucretia. Hún hefur m.a. sungið hlutverk í nýjum óperum eftir Harrison Birtwhistle, Simon Holt, Sunleif Rasmussen og Gregory Frid og er frammistaða hennar í hlutverki Ragnheiðar eftir Gunnar Þórðarson enn í fersku minni. Á Listahátíð 2018 fer hún með hlutverk Anne í óperunni Brothers eftir Daníel Bjarnason og hún mun flytja Vier Letzte Lieder eftir Strauss tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands haustið 2018.Þóra hefur lagt áherslu á ljóðasöng, haldið fjölda ljóðatónleika og tekið þátt í flutningi fjölda kirkjulegra verka. Auk tónleika á Íslandi hefur hún komið fram á tónleikum víða ásamt þekktum hljómsveitum, m.a í Barbican Hall, Royal Albert Hall og Royal Festival Hall í London, Konzerthaus Berlin, Berliner Dome, Philharmonie am Gasteig, Kennidy Center í Washington og Weil Recital Hall í New York. Þóra hefur sungið inn á hljóðritanir bæði hér heima og erlendis. Hún söng hlutverk Mimí í fyrstu heildarútgáfu á óperunni Vert-Vert eftir Offenbach sem kom út hjá Opera Rara í London. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verið sæmd hinni íslensku fálkaorðu og Dannebrog-orðunni. Hún hlaut íslensku tónlistarverðlaunin (söngkona ársins) 2016 og 2017. Þóra hefur starfað við Listaháskóla Íslands sem fagstjór söngs síðustu misseri og hefur nýverrið hlotið framgang í stöðu prófessors við skólann.

 

Hlutverk

 • Brúðkaup Fígarós (2019)
  Súsanna
 • Brothers (2018)
  Anna eiginkona Peters
 • Évgení Onegin (2016)
  Tatjana
 • Don Giovanni (2016)
  Zerlina
 • Ragnheiður (2014)
  Ragnheiður Brynjólfsdóttir
 • Carmen (2013)
  Micaëla
 • La Bohème (2012)
  Mimi
 • Töfraflautan (2011)
  Pamina
 • Rigoletto (2010)
  Gilda
 • Ástardrykkurinn (2009)
  Adina
 • La Bohème (2001)
  Musetta
 • Leðurblakan (1999)
  Adele