Sigrún Pálmadóttir

Sigrún Pálmadóttir

Sigrún Pálmadóttir hóf söngnám sitt við Tónlistarskólann á Akureyri hjá Hólmfríði Benediktsdóttur og stundaði síðan nám við Söngskólann í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur, og lauk þaðan burtfaraprófi árið 1999. Frá 1999-2001 stundaði  Sigrún nám við óperudeild Tónlistarháskólans í Stuttgart hjá Dunja Vejzovie og í ljóðadeild sama skóla hjá K. Richter. Sama ár og hún lauk námi var hún fastráðin við óperuhúsið í Bonn þar sem hún starfaði á árunum 2001-2010. Þar söng hún fjöldamörg burðarhlutverk óperubókmenntanna á borð við Næturdrottninguna í Töfraflautu Mozarts, Ólympíu í Ævintýrum Hoffmans, Zerbinettu í Ariadne á Naxos, titilhlutverkið í Luciu di Lammermoor, Víólettu Valéry í La traviata og Gildu í Rigoletto, og kom jafnframt reglulega fram í öðrum óperuhúsum, þar á meðal í Dresden, Wiesbaden og Köln. Hún hlaut verðlaun styrktarfélags óperunnar í Bonn 2004 fyrir vel unnin störf og framfarir.

Vorið 2008 söng Sigrún hlutverk Víólettu Valéry í La traviata eftir Verdi hjá Íslensku óperunni, og hlaut hún í kjölfarið Grímuna, íslensku leiklistarverðlaunin, í flokknum Söngvari ársins. Hér á landi hefur hún sungið á Vínartónleikum Sinfóníuhjómsveitar Íslands auk fleiri tónleika, m.a.  Clörukvæði og canzonettur í Salnum í Kópavogi. Erlendis hefur Sigrún sungið fjölda tónleika, m.a víða í Þýskalandi, í Drottningholm-leikhúsinu í Svíþjóð, í Bandaríkjunum, Grikklandi, Ítalíu og víðar. Sigrún lauk fyrsta og öðrum áfanga í kórstjórn frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 2018.

Frá árinu 2013 og til dagsins í dag hefur Sigrún starfað sem söng- og tónlistarkennari í Tónlistarskóla Ísafjarðar ásamt reglulegu tónleikahaldi og þátttöku í óperuuppsettningum. Sigrún stjórnar einnig barnakór Grunnskóla Bolungarvíkur auk þess starfaði hún tímabundið sem aðstoðarmaður skólastjóra í Tónlistarskóla Ísafjarðar árið 2018.

 

 

Hlutverk

  • Valkyrjan (Die Walküre) (2022)
    Gerhilde
  • La traviata (2008)
    Violetta Valéry