Oddur Arnþór Jónsson

Baritón

Oddur A. Jónsson

Oddur Arnþór Jónsson stundaði nám við Söngskólann í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Alex Ashworth og lauk burtfararprófi með ágætiseinkunn. Hann lauk meistaragráðu frá Universität Mozarteum í Salzburg, Austurríki vorið 2014 og hlaut Lilli Lehmann-viðurkenninguna fyrir framúrskarandi meistarapróf í óperusöng. Kennarar hans við skólann voru Andreas Macco, Martha Sharp, Eike Gramss, Gernot Sahler, Breda Zakotnik og Julia Pujol.

Oddur hefur hlotið fjölda viðurkenninga í alþjóðlegum keppnum. Hann sigraði Brahms-keppnina í Pörtschach í Austurríki; varð þriðji í Schubert-keppninni í Dortmund og þriðji í Musica Sacra-keppninni í Róm. Hann fékk Schubert-verðlaunin og verðlaun fyrir besta ljóða- og óratóríuflytjandann í Francesc Viñas-keppninni í Barcelona. Hann söng í úrslitum Belvedere-keppninnar og í alþjóðlegu Mozart-keppninni. Oddur hefur sungið Greifann í Brúðkaupi Fígarós, Guglielmo í Così fan tutte, Belcore í Ástardrykknum, Orest í Iphigenie auf Tauris eftir C. W. Gluck, Kaiser í Kaiser von Atlantis eftir V. Ullmann og Herald í The Burning Fiery Furnace eftir B. Britten. Sumarið 2013 var Oddur varamaður í Don Carlo fyrir Rodrigo á tónlistarhátíðinni í Salzburg. Sem einsöngvari hefur Oddur sungið Jesús í Jóhannesarpassíunni, bassahlutverkin í H-moll messunni og Jólaóratóríunni eftir Bach. Hann hefur einnig sungið kantötur og messur eftir Bach og Mozart. Í haust söng hann í fyrsta sinn við Íslensku óperuna, hlutverk Rodrigo í Don Carlo, og var útnefndur Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum í vor. Í febrúar síðastliðnum söng hann Lied von der Erde eftir Mahler í Garnier-óperunni í París í ballettuppsetningu John Neumeier.

Verkefni hjá ÍÓ