Kristján Jóhannsson

Kristján Jóhannsson

Kristján Jóhannsson hefur skapað sér sess sem einn allra fremsti dramatíski tenór okkar tíma. Kristján, sem kominn er af mikilli tónlistarfjölskyldu, hóf söngnám um tvítugt við Tónlistarskóla Akureyrar hjá Sigurði Demetz. Hann fór síðan til Ítalíu til frekara náms í Conservatorio Nicolini í Piacenza hjá Gianni Poggi. Hann sótti síðar einkatíma hjá þekktum listamönnum, eins og raddþjálfaranum Ettore Campogalliani og tenórnum Feruccio Tagiliavini og tileinkaði sér þar hinn sanna ítalska söngstíl.

Kristján þreytti frumraun sína á óperusviðinu árið 1980 í Osimo Teatro Piccola í Feneyjum í óperunum Il Tabarro og Gianni Schicci eftir Puccini og vakti fljótlega athygli stærri óperuhúsa í Bretlandi og Ítalíu. Kristján hefur sungið öll helstu hlutverk ítölsku óperubókmenntanna og eru hlutverkin orðin á fimmta tug. Hann hefur sungið í öllum helstu óperuhúsum heims, eins og Metropolitan-óperunni, Lyric Opera í Chicago,  Baltimore-óperunni, Teatro alla Scala, Teatro dell Opera Roma, Maggio Musicale í Flórens, Teatro San Carlo í Napoli,  ríkisóperunni í Vín, konunglegu óperunni í Covent Garden, Arena di Verona, Carnegie Hall í New York, nýju þjóðaróperunni í Peking, í München, Berlín, Hamborg, Frankfurt, Seúl, Tókyó, Zürick, Bologna, París, Tel Aviv, Varsjá og Zagreb.

Kristján söng í fyrsta skipti við Íslensku óperuna haustið 2008, þegar hann söng aðaltenórhlutverkin í Cavalleria Rusticana og Pagliacci.

Hlutverk

  • Tosca (2017)
    Cavaradossi
  • Cavalleria Rusticana og Pagliacci (2008)
    Turiddu (CR) / Canio (P)