Kristinn Sigmundssson

Kristinn Sigmundsson

Kristinn Sigmundssson hefur starfað sem söngvari síðan 1984. Fyrst hér heima, en frá árinu 1989 hefur starfsvettvangur hans að mestu leyti verið erlendis. Hann hefur komið fram í flestum stærstu óperu- og tónlistarhúsum heims, t.d. Metropolitan-óperunni í New York, Staatsoper í Vínarborg, La Scala í Mílanó, Covent Garden í London, Opéra National í París, Deutsche Oper og Staatsoper í Berlín, Royal Albert Hall í London og Concertgebouw í Amsterdam, svo nokkuð sé nefnt. Hann hefur auk þess tekið þátt í nokkrum hljóðritunum með erlendum hljómsveitum, t.d. Töfraflautunni og Don Giovanni með hljómsveit Drottningholm-óperunnar, Mattheusarpassíu og Jóhannesarpassíu Bachs með Orchestra of the eighteenth century og Rakaranum í Sevilla með útvarpshljómsveitinni í München.

Á þessu ári söng hann meðal annars í Hollendingnum fljúgandi eftir Wagner í Strasbourg, Rínargullinu eftir Wagner í Houston og Ástin á appelsínunum þremur eftir Prokofief í Flórens, Don Giovanni og Brúðkaupi Figarós eftir Mozart í Ravinia Festival í Chicago og 8. sinfóníu Mahlers í Cincinnati. Á fyrri hluta næsta árs mun hann syngja í The ghosts of Versailles eftir John Corigliani, Brúðkaupi Fígarós og Rakaranum í Sevilla í óperunni í Los Angeles.

Kristinn er auk þess virtur konsert- og ljóðasöngvari. Hann hefur haldið fjölda ljóðatónleika með Jónasi Ingimundarsyni píanóleikara á Íslandi og víða um lönd. Meðal hljóðritana þeirra eru Vetrarferðin og Svanasöngur Schuberts. Meðal viðurkenninga sem Kristinn hefur hlotið eru Philadelphia Opera Prize og Opernwelt-verðlaunin í Belvedere óperusöngvarakeppninni í Vínarborg árið 1983, Stämgaffeln – Det klassiska svenska fonogrampriset 1991, Íslensku tónlistarverðlaunin 1995, 2010 og 2011 og Útflutningsverðlaun Forseta Íslands 2011.

Hann var útnefndur bæjarlistamaður Kópavogs árið 2005 og hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1995.

Kristinn hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2016 fyrir framlag sitt til tónlistarlífsins.


Hlutverk

 • Valkyrjan (Die Walküre) (2022)
  Hunding
 • Rakarinn frá Sevilla (2015)
  Don Basilio
 • Don Carlo (2014)
  Filippus II
 • Rakarinn frá Sevilla (2002)
  Don Basilio