Jóhann Smári Sævarsson

Jóhann Smári Sævarsson

Jóhann Smári Sævarsson stundaði framhaldsnám í söng við óperudeild Royal College of Music og Royal Academy of Music í London. Að námi loknu réði hann sig til Kölnaróperunnar í þrjú ár, og var síðan á föstum samningi við óperuna í Regensburg. Jóhann hefur sungið sem gestasöngvari við fjölda óperuhúsa í Evrópu. Hann hefur starfað með ýmsum frægum hljómsveitastjórum, m.a. Bernard Haitink, Kent Nagano, James Conlon og Gennadi Rozhdestvensky, og hljómsveitum á borð við London Philharmonic, BBC Concert Orchestra, Gurzenich Orchester og WDR útvarpshljómsveitina í Köln.

Jóhann hefur sungið yfir 50 hlutverk á ferlinum, þar á meðal titilhlutverkið í Evgení Ónegin, Baron Ochs í Rósariddarunum, Filippo II í Don Carlo, Don Magnifico í Öskubusku, Sarastro í Töfraflautunni, Leporello í Don Giovanni, Rocco í Fidelio, Hollendinginn og Daland í Hollendingnum fljúgandi, titilhlutverkið í Gianni Schicchi, Tevje í Fiðlaranum á þakinu, Scarpia úr Tosca og titilhlutverkið í Mefistofele eftir Boito. Jóhann söng hlutverk Skugga í óperunni Hel efir Sigurð Sævarsson á Listahátíð 2009. Meðal verka á tónleikum hérlendis og erlendis eru Requiem Verdis, Requiem Mozarts, 9. sinfónía Beethovens, Sköpunin eftir Haydn og 8. sinfónía Mahlers, m.a. með Berlínarfólharmóníunni. Jóhann Smári söng hlutverk Trulove í uppsetningu Íslensku óperunnar á The Rake’s Progress haustið 2006 og Grenvils læknis í La traviata vorið 2008. Þá flutti hann Vetrarferð Schuberts í leikrænni útfærslu ásamt Kurt Kopecky árin 2008 og 2010 og var í kjölfarið tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna í flokknum Rödd ársins. Hann söng hlutverk Sparafucile í Rigoletto hjá Íslensku óperunni haustið 2010, Sarastró í Töfraflautunni haustið 2012 og Colline í La Bohème vorið 2012. Haustið 2013 söng Jóhann Smári hlutverk Il Commendatore í Don Giovanni eftir Mozart við Skosku óperuna í Glasgow, í leikstjórn Sir Thomas Allen.

Hlutverk

 • Don Giovanni (2016)
  Il Commendatore
 • Rakarinn frá Sevilla (2015)
  Dr. Bartolo
 • Peter Grimes (2015)
  Hobson
 • Ragnheiður (2014)
  Sr. Sigurður dómkirkjuprestur
 • La Bohème (2012)
  Colline
 • Töfraflautan (2011)
  Sarastro
 • Rigoletto (2010)
  Sparafucile
 • La traviata (2008)
  Grenvil læknir
 • The Rake's Progress (2007)
  Trulove, faðir Anne