Helga Rós Indriðadóttir

Sópran

Helga Rós Indriðadóttir

Helga Rós Indriðadóttir sópransöngkona debúteraði hjá Íslensku Óperunni haustið 2014 í hlutverki Elisabettu í Don Carlo. Hún stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan tónmenntakennaraprófi árið 1992 og söngkennara- og einsöngvaraprófi árið 1996. Þá tók við þriggja ára nám við Tónlistarháskólann í Stuttgart þar sem hún stundaði nám við ljóðadeild og lauk árið 1999 mastersprófi frá óperudeildinni.Á lokaári námsins var hún fastráðin við Óperuhúsið í Stuttgart og debúteraði sem Freyja í Rínargulli Wagners. Næstu átta árin söng hún fjölda hlutverka m.a. Nínettu í Ástin á appelsínunum þremur,  Antoníu í Ævintýrum Hoffmanns, Zerlinu í Don Giovanni, Ines í Il Trovatore, Ortlinde í Valkyrjunum, Woglinde í Ragnarökum  og Florice í frumflutningi á Pastorale eftir Gerard Pesson. Auk þess var hún gestasöngvari í óperuhúsunum í Bonn, Wiesbaden og Karlsruhe.  Í DVD útgáfu og hljóðritun Naxos af aldamótauppsetningu Niflungahrings Wagners frá óperunni í Stuttgart er Helga Rós í hlutverki Freyju í Rínargullinu og Woglinde í Ragnarökum.Helga Rós hefur sungið Sálumessur Mozarts og Verdis, Sköpunina, Árstíðirnar og Teresíumessu Haydns, Elías eftir Mendelssohn, Saul eftir Händel, Missa Solemnis og 9. sinfóníu Beethovens, f-moll messu Bruckners, Orfeo eftir Pergolesi og Les Illuminations eftir Britten. Hún hefur einnig sungið fjölda ljóða- og kammertónleika bæði hér heima og erlendis m.a. til að fylgja eftir geisladisk með sönglögum Jórunnar Viðar sem hún gaf út ásamt Guðrúnu Dalíu Salómonsdóttur píanóleikara árið 2009.

 Á árunum 2010 til 2012 stýrði Helga Rós Karlakórnum Heimi í Skagafirði. Hún tók við stjórn Skagfirska kammerkórsins í ársbyrjun 2013 og kvennakórnum Sóldísi haustið 2015. Haustið 2018 tók hún þátt í verkefni Skagfirska kammerkórsins "Í takt við tímann" en flutt var verkið Magnificat eftir John Rutter og íslensk einsöngslög í útsetningum Guðmundar Óla Gunnarssonar. Verkefnið var styrkt af Fullveldissjóði 

Verkefni hjá ÍÓ