Guja Sandholt

Guja Sandholt

Guja Sandholt býr í Reykjavík og Utrecht og starfar sem sjálfstætt starfandi söngkona og listrænn stjórnandi Óperudaga sem valin var Tónlistarhátíð ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2018. Á undanförnum árum hefur hún unnið við ýmis verkefni í Hollandi og víðar og má þar til dæmis nefna Nieuwe Stemmen prógrammið á Operadagen Rotterdam. Nýlega söng hún hlutverk Juliu Child í Bon Appétit! eftir Lee Hoiby við ýmis tækifæri og sumarið 2019 stóð hún fyrir íslenskum frumflutningi á King Harald's Saga eftir Judith Weir á Reykholtshátíð. 

Guja kemur oft fram sem einsöngvari í flutningi á óratoríum á borð við Mattheusarpassíuna og Jólaóratóríuna eftir J.S. Bach, Requiem eftir Mozart og Duruflé og hún stóð nýlega fyrir íslenskum frumflutningi á Stabar mater eftir Arvo Pärt og The Little Match Girl Passion eftir David Lang. Á undanförnum árum hefur hún komið fram á hátíðum eins og Grachtenfestival, Holland Festival, Óperudögum og Sumartónleikum í Skálholti. Hún syngur einnig reglulega með Hollenska útvarpskórnum og á ljóðatónleikum með Heleen Vegter, píanista. Fyrir nokkrum árum fór hún sem styrkþegi Wagner-félagsins til Bayreuth í Þýskalandi. 

Guja stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, Guildhall School of Music and Drama í London, Mozarteum tónlistarháskólann í Salzburg og hjá Jóni Þorsteinssyni og Charlotte Margiono við Konservatoríið í Utrecht í Hollandi. Hún hefur sótt tíma hjá Stephanie Doll í Düsseldorf frá árinu 2017.

www.gujasandholt.com

Hlutverk

  • Valkyrjan (Die Walküre) (2022)
    Roβweiβe