Gissur Páll Gissurarson

Gissur Páll Gissurarson

Gissur Páll Gissurarson þreytti frumraun sína aðeins ellefu ára gamall í titilhlutverkinu í söngleiknum Oliver Twist. Frá 1997 stundaði hann nám í Söngskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Magnúsar Jónssonar. Jafnhliða söngnámi söng Gissur í Kór Íslensku óperunnar og kom fram sem einsöngvari við ýmis tilefni. Hann hóf nám við Conservatorio G.B. Martini í Bologna árið 2001 og sótti síðan einkatíma hjá Kristjáni Jóhannssyni.

Fyrsta óperuhlutverk Gissurar á Ítalíu var sem Ruiz í óperunni Il Trovatore í Ravenna. Veturinn 2004 tók Gissur Páll þátt í uppfærslu á Così fan tutte, undir stjórn Claudio Abbado í Ferrara, Reggio Emilia og Modena. Sumarið 2005 söng hann hlutverk Danilo í Kátu ekkjunni og haustið 2005 kom Gissur Páll fram fyrir hönd Íslands á EXPO sýningunni í Nagoya í Japan. Árið 2006 tók Gissur Páll þátt í söngkeppninni Flaviano Labò og lenti í þriðja sæti af 123 keppendum. Þá um haustið hélt hann sína fyrstu einsöngstónleika á Íslandi í Salnum í Kópavogi. Sama ár tók hann þátt í söngkeppni í Brescia og hreppti þar tvenn verðlaun. Árið 2007 söng hann í Rakaranum í Sevilla í Heidelberg og í uppfærlsum á Werther eftir Massenet og Les Mammelles de Tiresias eftir Poulenc á Sardiníu. Gissur Páll söng sem gestasöngvari hlutverk Nemorino í uppfærslu Íslensku óperunnar á Ástardrykknum árið 2009 og var einn söngvaranna í Perluportinu vorið 2011. Þá söng hann hlutverk Rodolfo í La Boheme hjá Íslensku óperunni vorið 2012 og hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir túlkun sína á hlutverkinu.

Hlutverk

  • Rakarinn frá Sevilla (2015)
    Almaviva
  • La Bohème (2012)
    Rodolfo
  • Ástardrykkurinn (2009)
    Nemorino