Fjölnir Ólafsson

Fjölnir Ólafsson
Fjölnir Ólafsson baríton hóf nám í klassískum gítarleik 10 ára gamall en gerði sönginn að aðalfagi sínu árið 2008. Hann lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2010 og BMus gráðu frá Hochschule für Musik Saar í Þýskalandi sumarið 2014.  
 Fjölnir hefur komið fram á fjölda tónleika í Þýskalandi og á Íslandi. Þar má nefna Ein Deutsches Requiem eftir Brahms, hlutverk Jesú í Matteusarpassíu Bachs, titilhlutverkið í Don Giovanni eftir Mozart með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins, frumflutning á verki fyrir baríton og kammersveit eftir Tzvi Avni við texta eftir Paul Celan, sem og fjölda ljóða- og einsöngstónleika.  
 Árið 2012 þreytti Fjölnir frumraun sína við Saarländische Staatstheater í Aladdín og töfralampanum eftir Nino Rota, en þar hefur hann einnig farið með fjölda minni hlutverka, m.a. í Toscu eftir Puccini og Macbeth eftir Verdi, sem og aðalhlutverk í nýrri barnaóperu eftir Gordon Kampe, Kannst du pfeifen, Johanna?  

 Fjölnir hefur hlotið ýmis verðlaun og  styrki. Hann vann til verðlauna í Richard Bellon keppninni 2011 og Joseph Suder ljóðakeppninni 2012. Hann var valinn Bjartasta vonin í sígildri og samtímatónlist á Íslensku tónlistarverðlaununum 2013 og er styrktarhafi Tónlistarsjóðs Rótarý. Í apríl 2013 var Fjölnir einn af átta söngvurum sem var boðið að taka þátt í ljóðanámskeiði tónlistarhátíðarinnar Heidelberger Frühling og naut þar leiðsagnar Thomas Hampsons, Thomas Quastoffs og Wolfram Riegers.

Hlutverk

  • Tosca (2017)
    Sciarrone