Irene Kudela

Irene Kudela raddþjálfari

Irene Kudela er fædd í Júgóslavíu inn í tékknesk-rússnesk-pólsk-franska fjölskyldu. Hún hóf tónlistarnám í Prag og lauk meistaragráðu í píanóleik, kammertónlist og meðleik frá Konservatoríinu í París. Irene er styrkþegi heiðursverðlauna Yehudi Menuhin sjóðsins. Hún talar sjö tungumál reiprennandi og hefur sérhæft sig í rússneskum, tékkneskum og frönskum óperubókmenntum.

Irene hefur starfað við öll helstu óperuhús og -hátíðir í Frakklandi. Hún hefur aðstoðað hljómsveitarstjóra á borð við Pierre Boulez, Guenadi Rozhdestvensky, Jiri Belohlavek, Kent Nagano, Myung Whung Chung og Charles Mackerras. Á árunum 1985–1988 var Irene aðstoðarmaður Mistislav Rostropovitch í öllum óperum sem hann stjórnaði í Evrópu og Bandaríkjunum. Sem raddþjálfari hefur hún unnið með fjölda heimsþekktra söngvara, eins og Rolando Villazon, Natalie Dessay, Roberto Alagna, Renee Fleming, Barbara Hendricks, Ruggero Raimondi og Leonie Rysanek. Hún er ennfremur kórstjóri og hefur stjórnað við Bastilluóperuna í París, Theatre des Champs Elysees og RadioFrance. Hún þjálfar unga söngvara og píanóleikara við Academie de l'Opera de Paris, London National Opera Studio og Foundation Royaumont. Hún hefur tekið þátt í tónlistarhátíðum á borð við Aix en Provence, Savonlinna, Salzburg, Orange og Glyndebourne og hefur komið fram sem píanóleikari í Júgóslavíu, Japan, Finnlandi, Englandi og Frakklandi.

Listræn stjórnun

  • Mannsröddin (2017)
    Tónlistarstjóri
  • Évgení Onegin (2016)
    Tungumála- og raddþjálfari