Bjarni Frímann Bjarnason

Bjarni Frímann

Bjarni Frímann stundaði fiðlunám hjá Lilju Hjaltadóttur og Guðnýju Guðmundsdóttur. Hann lauk prófi í lágfiðluleik frá Listaháskóla Íslands. Árið 2009 bar hann sigur úr býtum í einleikarakeppni Listaháskóla Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Íslands og lék í framhaldinu lágfiðlukonsert Bartóks með sveitinni á tónleikum. Að því loknu stundaði hann nám í hljómsveitarstjórn undir handleiðslu Fred Buttkewitz við Tónlistarháskólann Hanns Eisler í Berlín.Bjarni hefur komið fram víðsvegar um Evrópu, bæði sem strengja- og hljómborðsleikari. Hann hefur stjórnað mörgum af fremstu hljómsveitum á Íslandi - Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, CAPUT og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins. Þá hefur hann samið tónlist fyrir leikhús og kvikmyndir bæði hérlendis og erlendis.Árið 2012 vann hann fyrstu verðlaun í Hanns Eisler-keppninni í Berlín fyrir frumflutning á píanótilbrigðum eftir Viktor Orra Árnason. Hann var útnefndur Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2016. Sama ár stjórnaði hann flutningi á óperunni UR_ eftir Önnu Þorvaldsdóttir við óperuna í Osló, í Chur og Basel og á Listahátíð í Reykjavík. Árið 2016 -2017 stjórnaði Bjarni Frímann hljómsveitartónleikum með Björk Guðmundsdóttur í Mexíkóborg, Fílharmóníunni í LA og í Hörpu. Hann var aðstoðarhljómsveitarstjóri í Évgeni Onegin hjá Íslensku óperunni 2016 og stjórnaði síðan uppfærslu ÍÓ á  Toscu 2017,  Hans og Grétu árið 2018 , La traviata 2019  og uppfærslu ÍÓ á Brothers á Armelhátíðinni í Búdapest árið 2019. Bjarni Frímann hefur nýverið verið ráðinn aðstoðarhljómsveitarstjóri  Sinfóníuhljómsveitar Íslands. 


Listræn stjórnun

 • Brúðkaup Fígarós (2019)
  Hljómsveitarstjóri
 • La traviata (2019)
  Hljómsveitarstjóri
 • Hans og Gréta (2018)
  Hljómsveitarstjóri
 • Tosca (2017)
  Hljómsveitarstjóri