Anthony Pilavachi

Anthony Pilavachi


Anthony Pilavachi hefur leikstýrt yfir 80 uppfærslum í ýmsum virtum óperuhúsum víða um heim. Hann hefur unnið til margra verðlauna, m.a. fékk hann hin virtu „Echo Klassik Award“ árið 2012 fyrir „áhugaverðustu og mikilvægustu uppfærslu síðustu ára á Niflungahring Wagners“ sem hann leikstýrði í Lübeck 2007–2010 og var gefin út á DVD.

Pilavachi er fæddur á Kýpur, ólst upp í Frakklandi en er nú írskur ríkisborgari búsettur í Köln í Þýskalandi þar sem hann starfar mest. Áður en hann hóf nám við Guildhall School of Music and Drama í London leikstýrði Pilavachi óperunni La Serva Padrona eftir Pergolesi í  Monte-Carlo árið 1983 og hlaut styrk úr sjóði Grace Mónakóprinsessu til náms í London.

Eftir að hafa aðstoðað fjölmarga leikstjóra starfaði hann sem leikstjóri í Óperuhúsinu í Bonn árin 1987–1992 og síðan sem fastráðinn leikstjóri í Kölnaróperunni 1992–1995.

Síðan þá hefur hann sett á svið 86 óperusýningar víða um heim. Hann leikstýrði heimsfrumsýningunni á endurgerðri óperu Verdis, Gustavo III, í Gautaborg 2002 og frumsýningunni á sama verki í Darmstadt 2004, en það var í fyrsta sinn sem verkið var flutt í Þýskalandi.

Á meðal nýjustu verkefna Pilavachis má nefna heimsfrumsýningu á óperunni The Ghost of Canterville eftir Gordon Getty í Leipzig vorið 2015 og Capriccio eftir Richard Strauss í Meiningen. Að lokinni uppsetningunni á Évgení Onegin í Íslensku óperunni mun hann stjórna nýrri uppfærslu á óperunni Cinq-Mars eftir Charles Gounod í Leipzig og Capriccio eftir Richard Strauss í Innsbruck.

Listræn stjórnun

  • Évgení Onegin (2016)
    Leikstjóri