Ingveldur Ýr Jónsdóttir

Soprano

Ingveldur Ýr Jónsdóttir

Ingveldur Ýr hefur verið starfandi söngkona frá árinu 1991. Hún hefur komið fram víða um heim bæði á óperusviði og á tónleikapallinum. Ingveldur Ýr hefur fengið fjölda viðurkenninga og styrki fyrir flutning sinn og þátttöku í verkefnum ma. frá Reykjavíkurborg, Evrópusambandinu, FÍL, 92nd St. Y í New York og Meistersinger söngkeppninni í Graz. Ingveldur Ýr var um skeið fastráðin við óperuna í Lyon í Frakklandi og söng þar stór og smá hlutverk með stjórnendum á borð við Kent Nagano og Sir Neville Marriner. Við Bastilluóperuna söng Ingveldur Nornina í Hans og Grétu og hefur sungið á alþjóðlegum tónlistarhátíðum, m.a. á Tanglewood-hátíðinni í Bandaríkjunum í Peter Grimes undir handleiðslu Maestro Seiji Ozawa.

Á íslensku óperusviði söng Ingveldur Ýr aðalhlutverk í uppfærslum á Évgení Ónegin, Niflungahringnum, Á valdi örliaganna, Così fan tutte, Z-Ástarsaga, Dido og Eneas, Sweeney Todd, Rake´s Progress og Suor Angelica. Ingveldur Ýr hefur margsinnis komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands, m.a. í Guðrúnarkviðu eftir Jón Leifs; 9. sinfóníu Beethovens, Carmen, á Vínartónleikum og í D-dúr messu Dvořáks og syngur einnig með hljómsveitinni á diskinum Hafís í útgáfu BIS á verkum Jóns Leifs. Aðrar hljómplötuupptökur eru Íslenska einsöngslagið í útgáfu Gerðubergs og Fjólan í minningu Þórarins Jónssonar. Ingveldur Ýr gaf nýverið út einsöngsdiskinn Portrett með úrvali af lögum frá ferli sínum, við útsetningar Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar og hljóðfæraleik Caput-hópsins.

Meðfram starfi sínu sem söngkona hefur Ingveldur Ýr um árabil rekið sitt eigið söngstúdíó og staðið fyrir kennslu í raddbeitingu og söng af ýmsu tagi. Hún þjálfar sönghópa og kóra, m.a. sönghópinn Spectrum og lauk kórstjóraprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Hún kennir einnig raddbeitingu við Háskólann í Reykjavík. Ingveldur Ýr hóf söngnám við Söngskólann í Reykjavík eftir ballettnám í Listdansskóla Þjóðleikhússins. Átján ára fór hún utan til náms í söng og leiklist við Tónlistarskóla Vínarborgar og lauk mastersgráðu frá Manhattan School of Music í New York 1991. Einnig hefur hún lokið 2. stigi í raddfræðum hjá Jo Estill Voice Training, auk fjölda námskeiða og masterclassa.

Icelandic opera credits