Elín Ósk Óskarsdóttir

Soprano

Elín Ósk Óskarsdóttir

Elín Ósk Óskarsdóttir er fædd og uppalin í Rangárvallarsýslu og hóf tónlistarnám sitt við Tónlistarskóla Rangæinga en stundaði síðan nám við Söngskólann í Reykjavík og lauk þaðan einsöngvaraprófi. Aðalkennari hennar var Þuríður Pálsdóttir. Elín Ósk stundaði framhaldsnám á Ítalíu og Englandi. Fyrsta óperuhlutverk Elínar Óskar var Tosca í uppfærslu Þjóðleikhússins1986. Síðan hefur Elín sungið fjölda mörg óperuhlutverk innanlands og erlendis m.a. Fiordiligi í óperunni Cosí fan tutte eftir Mozart, Fredkulla eftir M.A. Utbye, titilhlutverkið í óperunni Aida eftir Verdi, Lady Macbeth í óperunni Macbeth eftir Verdi og Toscu eftir Puccini í uppfærslu Íslensku Óperunnar.

Fyrir hlutverk Lady Macbeth var hún tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2003 sem besti flytjandi ársins í flokki sígildrar tónlistar. Árið 1995 var Elín  tilnefnd til tónlistarverðalauna fyrir hlutverk Leonoru í Á Valdi Örlaganna. Árið 2003 hlaut Elín viðurkenningu Sverrisdags í Hafnarborg fyrir framlag til menningar og lista í Hafnarfirði og  á 20 ára söngafmæli hennar árið 2006 var hún gerð að Bæjarlistamanni Hafnarfjarðar. Elín Ósk hefur tekist á við ýmis önnur verkefni en óperur, bæði hér á landi og erlendis s.s.óratoriur og messur m.a. Jólaoratóríu eftir John A. Speight sem var valið besta verkið á evrópskum jólatónleikum Hallgrímskirkju 2003.Elín hefur sungið inn á hljómdiska haldið fjölda einsöngstónleika. Nýleg kom út hljómdiskur með aríum með henni ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Kurt Kopecky. Elín Ósk hefur starfað sem kórstjóri í mörg ár og ferðast innanlands sem utan með kóra sína  en árið 2000 stofnaði hún Óperukór Hafnarfjarðar. 2004 var Elínu Ósk boðið að koma og syngja með Fílharmoníuhljómsveit Sofíu í Búlgaríu ásamt Óperukór Hafnarfjarðar og fékk þá dóma eftir tónleikana að hún væri “Best geymda leyndarmál Evrópu” Óperukór Hafnarfjarðar hélt upp á 20 ára söngafmæli Elínar Óskar starfsárð 2006-2007 með uppsetningu á Cavalleria Rusticana í samvinnu við Íslensku óperuna þar sem Elín söng hlutverk Santuzzu. Hún söng hlutverk Santuzzu í uppfærslu Íslensku óperunnar á Cavalleria Rusticana og Pagliacci haustið 2008.

Árið 2009 var Elín Ósk sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til íslenskrar tónlistar og menningarlífs í landinu.

Icelandic opera credits