Viðburðir

Kúnstpása: Stáss með Strauss - Hanna Dóra, Hlín og Gerrit

Hvar Norðurljósasalur   Hvenær 2. maí 2017 kl. 12:15
Stáss með Strauss

STÁSS MEÐ STRAUSS!

Hanna Dóra Sturludóttir mezzósópran, Hlín Pétursdóttir Behrens sópran og Gerrit Schuil píanóleikari flytja perlur úr óperusafni Richard Strauss og rithöfundinn Hugo von Hoffmannsthal en þeir áttu í farsælu samstarfi um áratuga skeið. Hinir samfélagslegu umbrotatímar sem þeir lifðu á, aldamótin nítjánhundruð, upphaf tuttugustu aldar og millistríðsárin, endurspeglast iðulega í efnistökum þeirra þó sögusvið óperanna séu m.a. goðsögulegir tímar, gullöld austurríska keisaradæmissins og seinni hluti nítjándu aldar.

Sviðsverk þeirra einkennast af ægifagurri tónlist á mörkum klassíkur, rómantíkur og samtíma höfundanna, og afar dýrt kveðnum texta sem ekki bara stendur fyllilega jafnfætis tónlistinni heldur ákvarðar form, stærð og stefnu. Á yfirborðinu er allt slétt og fellt og ástin blómstrar en undir niðri kraumar ójafnvægi milli þjóðfélagsstétta, misskipting efnislegra gæða og óttinn um fjárhagslega afkomu. Einnig er fjallað um hlutverk listarinnar í samfélaginu. Er hún upphafið æðra form eða þess að dæmd til tilveru sem fórnalamb dægurmenningarinnar? Ástæðan fyrir því að þessi verk eru sígild er augljós enda brenna þessar spurningar á okkur nú sem aldrei fyrr.