Íslenska óperan á Hönnunarmars 2017

16. mars 2017 | Fréttir og tilkynningar

Hönnunarmars

Búningar hönnuðarins Maríu Th. Ólafsdóttur úr rússnesku óperunni Évgeni Onegin sem Íslenska óperan setti upp haustið 2016 eru einstakt augnakonfekt og náðu að skapa andrúmsloft og umgjörð sem fangaði augað. Búningarnir eru sérlega glæsilegir og unnir af natni þar sem hvert smáatriði skiptir máli og fær að njóta sín. Uppfærslan var valin ,,Tónlistarviðburður ársins 2016" á Íslensku tónlistarverðlaununum nú í febrúar síðastliðnum.

Það er ánægjulegt að geta sýnt brot af búningum Maríu á Hönnunarmars 2017, en sýningin mun standa dagana 23.-26.mars og vera opin frá 11.00 - 24.00. Sýningarstaðurinn er fyrir framan Eldborgarsal Hörpu á 2. hæð.
Sýningarstjóri er Ása Lára Axelsdóttir kjólameistari.

Sunnudaginn 26.mars kl.14.00 mun María Th. Ólafsdóttir stíga á stokk og segja frá tilurð búninganna og vinnunni í kringum uppfærsluna. Allir hjartanalega velkomnir!