Heimur óperunnar - Kosning er hafin!

18. maí 2017 | Fréttir og tilkynningar

Heimur óperunnar

Það verður mikið um dýrðir föstudagskvöldið 1.september þegar óperutónlist hljómar í Eldborgarsal Hörpu.

Klassíkin okkar, samkvæmisleikur þar sem almenningi gefst kostur á að velja efnisskrána á sérstökum hátíðartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og RÚV, er snúinn aftur, og nú er heimur óperunnar í brennidepli.

Netkosning um uppáhalds óperuaríur þjóðarinnar hófst 17.maí, en tónleikarnir verða 1. september í Eldborg og sýndir í beinni útsendingu í Sjónvarpinu.

„Flóðbylgja af gleði og þakklæti“

Þetta er annað árið í röð sem Sjónvarpið sýnir beint frá Sinfóníutónleikum þar sem almenningur hefur fengið að setja saman efnisskrána. „Þetta gekk ótrúlega vel í fyrra“ segir Árni Heimir Ingólfsson, listrænn ráðgjafi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. „Við fundum eiginlega bara flóðbylgju af þakklæti og væntumþykju eftir þessa tónleika, þeir þóttu heppnast alveg einstaklega vel. Svo það var eiginlega ljóst strax eftir þessa tónleika að við þyrftum að halda þessu verkefni áfram, það var svo mikil eftirspurn eftir því.“

42 atriði í boði - og alltaf má bæta við

Í ár á óperan sviðið, með öllum sínum örlagaflækjum og ógleymanlegu laglínum, og tónleikarnir verða í samstarfi við Íslensku óperuna. „Þetta er svona næstum því of gott til að vera satt,“ segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir, óperustjóri. Almenningur getur kosið sín eftirlætis óperuatriði með því að fara inn á ruv.is/klassikin og velja úr fjörutíu og tveggja atriða lista. Einnig er hægt að leggja til nýjar uppástungur, ef uppáhalds aríurnar eru ekki á listanum. Í boði eru kaflar úr óperum frá barokktímanum fram á tuttugustu öld, og Árni Heimir er sannfærður um að jafnvel þeir sem aldrei hafa stigið fæti inn í óperuhús kannist við nokkrar grípandi laglínur.

Heimur óperunnar opnaður í útvarpsþáttum

Fyrir þá sem vilja kynna sér betur heim óperunnar betur áður en þeir kjósa, sér Guðni Tómasson um útvarpsþættina Klassíkin okkar - heimur óperunnar á Rás 1 næstu vikurnar, þar sem kafað er ofan í óperutónlist frá öllum tímum, og dregnar fram magnaðar upptökur. Þættirnir birtast á vefnum ruv.is/klassikin um leið og þeir hljóma í útvarpinu. 

Hin sam-mannlega reynsla óperunnar

En í hverju er galdurinn í þessari tónlist fólginn? „Þegar fólk byrjar að syngja - það er eitthvað sem er bein tenging inn í okkar tilfinningalíf. Og það er nú kannski svo merkilegt að þótt listin hafi orðið til í einhverju efri lögum samfélagsins á sínum tíma, þá er hún að bjóða okkur einhverja sam-mannlega reynslu. Þetta eigum við þó sameiginlegt, að geta orðið snortin af einhverju sem er fallegt,“ segir Árni Heimir.

(Fréttin er skrifuð af Höllu Oddnýju Magnúsdóttur og tekin beint af vef RÚV)